Getur evran lækkað vexti á húsnæðislánum á Íslandi?

November 7, 2025

Í ágúst ákvað peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að halda stýrivöxtum óbreyttum í 7,5%. Til samanburðar eru vextir í Bandaríkjunum um 4% og á evrusvæðinu um 2%. Þegar tekið er tillit til verðbólgu stendur Ísland enn upp úr: raunvextir eru um 3,7%, á meðan þeir eru nálægt núlli hjá helstu viðskiptalöndum okkar. Þetta þýðir að íslensk heimili og fyrirtæki greiða raunverulega hærri vaxtabyrði en nágrannar okkar, þrátt fyrir svipaða efnahagsþróun.

Þegar rætt er um upptöku evrunnar í íslenskri umræðu er það gjarnan sett fram sem tæki til að „fá lægri vexti“. En jafnvel þótt Ísland tæki upp evruna á met­tíma, þá er ekki víst að vaxtastigið hér myndi strax jafnast við það sem gildir í Þýskalandi eða Frakklandi. Ástæðan er sú að vaxtamunur milli evrulanda er sjálfur mikill, þrátt fyrir sameiginlega peningastefnu. Það sem ræður ferðinni eru innviðir fjármálakerfisins, samkeppni á bankamarkaði, áhættumat og saga landsins.

Evrusvæðið – eitt myntkerfi, en margir vextir

Þótt öll ríki evrusvæðisins hafi sömu stýrivexti frá Evrópska seðlabankanum (ECB) er flutningurinn út í raunhagkerfið – svokallað rate transmission – mjög mismunandi. Í löndum eins og Spáni og Frakklandi eru húsnæðislán oft á föstum vöxtum til langs tíma og samkeppni milli banka mikil. Þar geta heimili fengið langtímalán nálægt stýrivöxtum ECB.

Í öðrum löndum, eins og Eistlandi, Slóvakíu og Írlandi, eru vextir mun hærri – jafnvel um 2–3 prósentustigum yfir meðaltali evrusvæðisins. Þar eru bankarnir færri, markaðurinn lítill og áhættumat bankanna hærra. Þessi munur sýnir að sameiginleg mynt jafnar ekki út sögulega, stofnana- og samkeppnislega þætti sem hafa áhrif á vexti.

Ef Ísland tæki upp evruna í dag, myndi það losna við gjaldeyrisáhættu og seðlabankinn glata sjálfstæðri peningastefnu. En það þýðir ekki að íslensk heimili fengju strax þýska vexti. Þrír þættir myndu líklega halda vaxtamuninum uppi um sinn:

  1. Lítill og fákeppnismarkaður: Þrír stórir bankar ráða yfir nánast öllum útlánum. Slík fákeppni hefur haldið vaxtamuninum viðvarandi miklum, jafnvel án gengisáhættu.
  2. Hár áhættuprófíll: Efnahagur Íslands hefur tekið fleiri kollhnýsa og dýfur þó aðlögunarhæfnin sé mikil – fjárfestar og matsfyrirtæki myndu því áfram krefjast hærri ávöxtunarkröfu þar til traust hefur byggst upp á ný.
  3. Veikt „transmission“: Vegna smæðar markaðarins, hás fjármagnskostnaðar og skorts á virkum skuldabréfa- og tryggingamörkuðum, er flutningur vaxtabreytinga út í lánamarkaðinn hægari og veikari. Þannig er vaxtamunur hér líklegur til að halda sér lengur, jafnvel innan evrunnar.

Að taka upp evruna gæti með tímanum leitt til lægri vaxta – sérstaklega ef íslenskir bankar fengju aðgang að stærri fjármagnsmarkaði og samkeppnin ykist. En ferlið gæti tekið mörg ár eða áratug, enda þarf traust, markaðsdýpt og fjármögnunarleiðir að þróast. Þangað til kemur Ísland til með að sitja í efri hluta vaxtadreifingar evrusvæðisins – svipað og Írland eða Slóvakía gera í dag – en ekki í lægsta bandinu með Þýskalandi og Frakklandi.

Það er því villandi að líta á evruna sem „töfralausn“ sem felli vexti sjálfkrafa. Að baki vaxtamuni liggja stjórnmálalegar ákvarðanir, reglur, samkeppnisumhverfi og traust. Til að Ísland fái raunverulega lægri vexti þarf að byggja upp: dýpri fjármálamarkaði, aukna samkeppni í bankakerfinu, stöðugt verðlag og trúverðugleika, og bættri leiðni (transmission) milli seðlabanka og heimila.

Þangað til það gerist verður vaxtamunurinn við Evrópu að mestu innlend afleiðing af smæð, sögulegri áhættu og fákeppni, ekki bara myntinni. Á einhverjum tímapunkti dragast raunvextir saman. Ef verðbólga helst t.d. 2% yfir evrusvæðinu þá gætu stýrivextir á Íslandi verið komnir í 4% og húsnæðislán í 6% innan tíðar. Þetta eru sambærilegir vextir og Ísland gæti búist við innan evrunnar.

Comments 0

No comments yet. Be the first to comment!