Jökull Sólberg

Við erum að keyra á vegg
August 6, 2019

Greinin birtist á Stundinni.


Þrátt fyrir lúðraþyt og stórar yfirlýsingar um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 er fátt sem bendir til þess að okkur takist að standa við okkar hluta Parísarsamkomulagsins. Það er oft bent á að vegasamgöngur séu ekki nema 7% af heildarútblæstri landsins og því lítið sem hægt er að aðhafast á því sviði. Er þetta rétt?

Útblástur á Íslandi árið 2017 var um það bil 14.000 kílótonn af CO2 ígildi. … þar af landnotkun: 9.321 kílótonn. … þar af útblástursleyfi innan ETS viðskiptakerfi Evrópusambandsins: 1.800 kílótonn.

Ísland hefur skuldbundið sig til að fylgja Parísarsáttmálanum, en hann tekur hvorki til ETS viðskiptakerfisins né útblásturs sem hlýst af landnotkun. Kíkjum á það sem eftir situr: 2.954 kílótonn og þar af eru 975 kílótonn sem tengjast vegasamgöngum. Þriðjungur af umræddum útblæstri er vegna orkunotkunar í vegasamgöngum.

Útblástur ársins 2017
Útblástur ársins 2017

Sérfræðingar eru sammála um að þessi hluti af útblæstri okkar þurfi að fara niður í 500 kílótonn á landsvísu fyrir árið 2030 til að samræmast markmiðum Parísarsáttmálans sem er 40% minni útblástur en árið 1990. Í öðrum orðum: útblástur sem er rakinn til vegasamgangna þarf að öðru óbreyttu að helmingast á 11 árum.

Ef litið er til loftslagsaðgerðaráætlunar ríkisstjórnarinnar er gulltryggt að þetta markmið næst ekki í tæka tíð. Án frekari aðgerða mun rafbílavæðing aðeins hafa náð til 30% af bílaflota árið 2030 samkvæmt spálíkönum. Ferðavenjur munu ekki hafa breyst nægilega mikið og höfuðborgarsvæðið verður ennþá með bílinn í forgangi þó stefnubreyting sveitarfélaganna sé farin að hafa jákvæð áhrif.

Ríkisstjórnin hefur veðjað á að öflugar ívilnanir fyrir raf- og tengiltvinnbíla skili sér í grænni bílaflota. Stefnt er að banni á nýskráningum dísel- og bensínbifreiða, þó með undanþágum, árið 2030. Á hverju ári bætast við 3-4.000 grænar fólksbifreiðir sem styðjast fyrst og fremst við vistvæna og innlenda orkugjafa. Vöxtur í nýskráningum þessa flokks bíla var 21% frá árinu 2017 til 2018, en til viðmiðunar telur bílaflotinn um 270 þúsund fólksbifreiðir. Langflestir nýir fólksbílar eru knúnir innfluttu eldsneyti og verða ef til vill ennþá í umferð þegar örlagaárið 2030 gengur í garð. Samkvæmt Samgöngustofu voru í fyrra 18 þúsund dísel- og bensínbílar nýskráðir en rafbílar aðeins 617. Árið áður voru nýskráðir dísel- og bensínbílar tæplega 20 þúsund, á meðan rafbílar voru 415. Þó að hver einasta nýskráning væri græn væri bílaflotinn ekki fyllilega endurnýjaður árið 2030. Slíkur er fjöldi dísel- og bensínbíla sem hefur bæst við umferðina á síðustu árum með tilheyrandi metum í umferðarmagni á höfuðborgarsvæðinu. Framboð á rafknúnum og langdregnum fólksbílum er takmarkað enn um sinn og því hafa ívilnanir ekki haft meiri áhrif en raun ber vitni.

Miðað við fólksfjölgun, sparneytni nýrra bíla og hærra hlutfall raf- og tengiltvinnbíla þá verðum við einnig að minnka akstur á höfuðborgarsvæðinu um 50% samkvæmt rannsóknarhópi Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Það er því deginum ljósara að það þarf að stöðva allar áætlanir um nýjar gatnaframkvæmdir nema í allra brýnustu tilfellum til að tryggja öryggi og þá með því að hægja á umferð. Við þurfum að þétta byggð með öllum ráðum til að draga úr fjölda og lengd bílferða sem og hagræða eins og mögulegt er í vöruflutningum. Ný byggð verður að myndast fyrst og fremst miðsvæðis og á samgönguásum þar sem áherslan er á almenningssamgöngur, ekki í jaðri byggðar — hvað þá í sveitarfélögum þar sem íbúar sækja þjónustu og ferðast til vinnu með einkabílum til höfuðborgarsvæðisins.

Ferðavenjur breytast ekki einungis með því að fleiri og fleiri séu haldnir loftslagskvíða. Almenningur lifir og hrærist í manngerðu skipulagi. Loftslagskvíði- og skömm getur ekki verið hluti af aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar heldur verðum við að gera stórtækar breytingar á umhverfinu og dreifa þeim gæðum sem náttúran má við jafnt á hendur allra. Þessi áætlun um rafvæðingu bílaflota er ekki sannfærandi sem helsta framlag ríkisins í því neyðarástandi sem ríkir nú þegar í loftslagsmálum. Eins eru áform umferðaraukandi framkvæmda á við Sundabraut ekki til að auka á trúverðugleika ríkisstjórnar eða aðgerðaráætlunar hennar í loftslagsmálum.

Orkuskipti, orðið sjálft, hefur orðið að pólitísku tískuorði. Ráðherrar keppast um að tilkynna nýjar hleðslustöðvar. Á sama tíma er ekki enn búið að semja um aðkomu ríkisins að Borgarlínu og bílafloti sem gengur að mestu fyrir innfluttu jarðefnaeldsneyti stækkar á hverju ári.

Sannleikurinn er sá að þessi orkuskipti nægja ekki þegar litið er til útblásturs sem tengist ferðavenjum okkar. Þau komast ekki einu sinni nálægt því. Sé ætlunin að ná hinu háleita markmiði um 500 kílótonn árið 2030 þarf að draga úr akstri sem nemur 6,4% á hverju ári og annaðhvort sleppa þeim ferðum eða styðjast við annað en einkabíl. Til að það gerist höfum við tvo valkosti. Við gætum skammtað eldsneyti eins og gert var á styrjaldartímum síðustu aldar. Hinn kosturinn er að laga manngert umhverfi þannig að fólk finni einfaldlega ekki ástæður til að keyra eins mikið, með fjárfestingum í innviðum fyrir gangandi og hjólandi sem og forgangi almenningssamgangna. Seinni valkosturinn hlýtur að vera sá sem við lítum til.

 • Eigum við að hækka bílprófsaldur um eitt ár strax og svo annað ár 2022?
 • Eigum við að biðja Domino’s, Aha og lögregluna um að nota rafhjól eða létt bifhjól fyrir helming ferða?
 • Eigum við að hækka greiðslur fyrir förgun eldri bíla til að minnka bílaflotann „þeim megin“?
 • Eigum við að fella niður VSK á rafhjólum og léttum bifhjólum?
 • Eigum við að hraða framkvæmdum Borgarlínu?
 • Eigum við að búa til hjólahraðbrautir meðfram stofnvegum og á milli sveitarfélaga?
 • Eigum við að flýta banni á bifreiðum sem ganga bara fyrir eldsneyti til ársins 2020?
 • Eigum við að banna óþarflega orkufrekar bifreiðar?
 • Eigum við að byrja að nota burðarhjól fyrir vöruflutninga eins og Pósturinn gerir?
 • Geta vinnuveitendur stytt vinnuvikuna og breytt bílastæðum í hjólastæði?
 • Getum við lokað bílastæðum við skóla til að letja akstur ungs fólks?

Góðu fréttirnar

 • Allar þessar framkvæmdir koma til með að hafa jákvæð áhrif á þjóðfélagið þar sem gönguvænar borgir eru vinsælar, öruggar og fallegar
 • Mikið af þessum framkvæmdum spara ríkinu, heilbrigðiskerfinu og heimilum fjármuni
 • Stefna sveitarfélaga um að setja gangandi og hjólandi í forgang nýtur meiri stuðnings meðal almennings en nokkru sinni fyrr
 • 85% af þjóðinni trúir að hlýnun jarðar sé á okkar ábyrgð
 • Aukning á notkun almenningssamgangna bætir rekstrarskilyrði stakra leiða og rennir stoðum undir bætta þjónustu
 • Vel er hugsanlegt að rafhlöðutækni bætist á næstu árum og skili sér í hærri hlutdeild nýrra rafbíla

Heimildir