Jökull Sólberg

Síðkapítalismi (þýðing)
January 23, 2018

Höfundur: Steve Keen Þýðing: Jökull Sólberg

Bókin Síðkapítalismi (e. Postcapitalism) eftir Paul Mason byrjar á þeirri fleygu staðhæfingu að „fyrir hinn þróaða heim tilheyri það besta af kapítalismanum fortíðinni, og hvað afganginn varðar þá verði honum lokið á okkar lífstíma“ (Mason 2017). Skoðun sína byggir hann á tveim óumdeilanlegum kreppum: efnahagshruninu 2008 og hinu yfirvofandi umhverfistjóni sem heimshlýnunarvandinn er. En eru þessar krísur sem kapítalisminn stendur frammi fyrir nóg til að hægt sé að tala um síðkapítalískt þjóðfélag í eiginlegum skilningi?

Það fer eftir því hver skilgreiningin á kapítalisma er. Hugtakið er þrungið hugmyndafræðilegri spennu, að því leiti að sumir halda því fram að kapítalismi hafi alltaf verið til—af því það hafi alltaf verið til markaðir—á meðan aðrir vilja meina að hann hafi aldrei verið til—af því ríkið hafi alltaf verið til.

Til þess að hvorugum öfgahópnum sé gert undir höfði sem og fyrir okkar eigin sakir í þessari ritgerð skilgreini ég kapítalisma sem félags-, framleiðslu- og peningakerfi þar sem hagnaðarhvati er stýrandi, þar sem markaðs- og andríkisleghugmyndafræði er ríkjandi, þar sem framleiðsluaðferðir eru í eigu einstaklinga (kapítalista) fremur en ríkis, þar sem fjármál og peningamyndun eru fyrst og fremst undir stjórn einkaaðila, þar sem réttur kapítalista og fjármálageirans til að stýra viðskiptum og háttum er aðeins að litlu leyti takmarkaður af ríkinu (þvert á móti aðstoðar ríkið þá ríkulega) og þar sem aðrir en kapítalistar eru upp á kapítalistana komnir fyrir tekjur sínar.

Að þessari skilgreiningu gefinni er ég sammála Mason, að síðkapítalískt þjóðfélag verði að veruleika, vegna fyrrgreindu kreppanna tveggja en líka þeirrar þriðju: með hruni langflestra starfa í framleiðslu og þjónustu, að undanskildum þeirra allra kröfumestu.

Skuldafen

Í bókinni Getum við forðast annað efnahagshrun? (e. Can we avoid another financial disaster?) (Keen 2007), sýni ég fram á, í mótsögn við ríkjandi efnahagshugsun, að lánsfé sé stór hluti heildareftirspurnar og að hrun í lánsfé (e. credit) í Bandaríkjunum, Bretlandi og stórum hluta Evrópu hafi orsakað efnahagshrunið 2008.

Hrunið kom meginstraumshagfræðingum í opna skjöldu þar sem líkön þeirra taka ekki mið af lánsfé. Í þeirra líkönum hefur lántaka engin heildaráhrif, heldur færir aðeins tímabundinn kaupmátt frá lánveitanda til lántaka.

Samkvæmt módelinu þeirra, sem kallast lánasjóðsmódelið, búa bankar ekki til lán heldur eru þeir milliliðir þar sem sparifjáreigendur mæta lántakendum. Hagnaðurinn er þá munurinn á vöxtum innláns og láns (Ég hef í gríni kallað þetta „Ashley Madison“ bankamódelið).

Óhefðbundnir hagfræðingar, eins og ég, hafa bent á þessa vitleysu í nærri 40 ár án árangurs þar til nú í efnahagshruninu 2008. Síðan þá hafa seðlabankar gefið þessu gaum og bent á að hefðbundna bankalánamódelið sé rangt: bankar búa til lánsfé sjálfir, og þessi lán hafa sinn þátt í heildarpeningmyndun, sem um nemur þessum lánsfjárhæðum. Bankalán eru peningamyndun, og lánagreiðslur eða vanskil eyða peningum (McLeay, Radia et al. 2014; Deutsche Bundesbank 2017).

Ég hef tekið þessa röksemdafærslu lengra til að sýna fram á að fyrst fólk fær lánað til að kaupa vörur, eignir og þjónustu sé heildareftirspurnin summa veltu á peningum lögð saman við breytingu á bankaskuldum, sem er jafnmikil—og orsakar jafnframt—lánsfjár-keyrða breytingu í peningamagni. (Keen 2015)

Þarna sjáum við hversu mikilvægt er að skilja skuldir og lánsfé einkageirans til að skilja kapítalisma, þar sem lánsfé hefur bæði bein áhrif á, og er óstöðugur hluti af, heildareftirspurn. Lánsfé hækkar heildareftirspurn og leiðir til hækkandi hlutfalls skulda á móti vergri þjóðarframleiðslu (VÞF), ef lánsfé (sem er árleg breyting á skuld) fer framúr árlegri hækkun á VÞF. Eftirspurn sem er keyrð á lánsfé hækkar skuldaálag hagkerfis á sama tíma og eftirspurn er örvuð.

Bankar spila því stóra rullu í kapítalísku kerfi, en þetta hlutverk krefst engra sérstakra hæfileika: völd þeirra til að búa til peninga eru einfaldlega fylgifiskur tvöfalda bókhaldsins og bankaleyfisins.

Grunnregla tvöfalda bókhaldsins er að eignir mínus skuldbindingar eru samasem eigið fé. Stofnun án bankaleyfis (t.d. sparisjóðir) getur ekki búið til peninga af því þeir geta einungis lánað fé af reikningi sem þeir eru með hjá viðskiptabanka (sínum eigin innlánsreikningi) og lagt inn á annan eins reikning, þ.e. án þess að búa til nýjan pening. Breyting á heildareftirspurn sem slíkt lán orsakar er endurspeglað í því hvort lántaki eyði hraðar en lánveitandi.

Með bankaleyfi er hinsvegar hægt að búa til Eign í bókhaldinu (skuld lántakans við bankann, og þar með heimtur á hlut tekna skuldarans) og jafnháa Skuld (inneign skuldarans) á sama tíma. Með þessu er verið að búa til pening (og það er svona sem stærsti hluti peningamagns eru búinn til, í formi nýrra inneigna í banka). Að kalla þetta lántöku er villandi, þar sem það að lána felur í sér að framlengja peninga til einhvers annars —en hér er enginn inneignarreikningur hjá bankanum sem bankinn millifærir af. Í staðinn býr bankinn til pening og skuld á sama tíma.

Ef þetta heitir ekki lán, má kannski kalla þetta „Bankaupprunnir peningar og skuldir“ eða BPS.

Bankaleyfi eru vandmeðfarin, samfélagsveitt forréttindi sem ættu að nýtast þeim sem veita þau en ekki þeim sem eru handhafar þess. En í dag er þessu öfugt farið um allan heim. Eins og Marx sagði svo skemmtilega fyrir meira en öld síðan,

„Talandi um miðstýringu!: Lánakerfið, sem finnst í bönkum landsins og meðal stórra fjármagnsveitenda ásamt okrurunum sem umkringja þá, er í eðli sínu mikil miðstýring og gefur þessari stétt sníkjudýra þau miklu völd að geta ekki aðeins reglulega arðrænt kapítalista, heldur truflað raunverulega framleiðslu á afar varasaman hátt—og þetta lið veit ekkert um framleiðslu og ætti ekki að hafa neitt með hana að gera.“ (Marx 1894, pp. 544-45)

Peningamyndun í bönkum hefur farið frá því að fjármagna veltufé og fjárfestingar fyrirtækja eða stærri kaup heimila, í að fjármagna ekkert annað en spákaupmennsku. Þessi spákaupmennska hefur komið af stað hringrás þar sem verðbólga eigna drífur enn frekari fjárfestingu, sem hækkar verð og ýtir undir skuldastöðu einkageirans sem í dag er sú mesta sem við höfum séð.

Efnahagshrunið 2008 orsakaðist af hruni þeim hluta eftirspurnar sem byggði á skuldafé. Á sama tíma var skuldastaða einkageirans (á móti VÞF) á sögulegum hátindi. Berskjaldaðar þjóðir tóku sveiflu niður á við þegar skuldafé varð neikvætt. Í tilfelli Bandaríkjanna þar sem skuldafé hafði ekki verið neikvætt síðan 1950 fór skuldafé úr 15% af VÞF árið 2008 í neikvætt 6% árið 2010. Skuldastaða einkageirans féll örlítið úr 170% árið 2009 í 146% árið 2014 en er nú aftur á uppleið og er í 150% af VÞF.

Þjóðir með hátt skuldahlutfall sem sluppu með skrekkinn (eins og t.d. Ástralía) gerðu það með því að halda skuldafé jákvæðu. Skuldafé í Ástralíu var í 24% af VÞF árið 2007, rauk upp í 190% í miðju hruni og náði hámarki um mitt 2016 þegar það mældist 206% af VÞF. Nú er það tekið að falla þó það sé enn jákvætt, og það sama má segja um mörg slík lönd þar sem lántöku var haldið áfram til að fleyta efnahaginum fram yfir efnahagshrunið 2008. Kreppa mun skella á þessi lönd þegar þetta skuldahlutfall byrjar að falla og verður neikvætt á næstu árum. Þegar það gerist mun um helmingur heimshagkerfisins vera, það sem ég hef kosið að kalla, „Skuldaafturgöngur“ (e. „Walking Dead of Debt“).

Richard Vague, fyrrum bankamaður sem snéri sér að góðgerðarstarfsemi, skoðaði 150 skuldakrísur eina og hálfa öld aftur í tímann og komst að þeirri niðurstöðu að afskriftir séu eina leiðin út úr skuldakrísum (Vague 2014). Pólitískir hagsmunir bankageirans hafa hinsvegar verið teknir framyfir réttindi skuldara, sem leiðir að lokum til stöðnunar í hagkerfinu.

Við stöndum frammi fyrir tveimur möguleikum sem báðir stríða gegn kapítalismanum: annaðhvort höldum við áfram að láta skuldir sem geta ekki verið greiddar til baka falla í vanskil—sem mun grafa undan efnahagslegri virkni sem hefur verið hugmyndafræðilegt verndarvíg kapítalismans; eða Nútíma skuldaniðurfelling (e. Modern Debt Jubilee) þar sem geta ríkisins til að búa til peninga er virkjuð til að taka peninga úr umferð með niðurfellingum skulda (innskot: líkt og var gert á Íslandi í kjölfar efnahagshrunsins 2008).

Ég set peninginn minn (hehe) á fyrri útkomuna: pólitíkusar munu láta sig hafa hjöðnun í hagkerfinu í stað þess að storka bönkunum. Hins vegar býst ég við því að önnur ógn kapítalismans muni gera þá tilneydda til að endurskoða bankakerfið: tjón á vistkerfinu sem iðnaðarþjóðfélagið mun hafa unnið á jörðinni.

Kæfð af kolefnum

Að umhverfislúddítum eins og Trump og Tony Abbott undanskildum, þá eru flestir að minnsta kosti meðvitaðir um það að iðnaðarframleiðsla hefur aukið gríðarlega við magn koltvísýrings í andrúmsloftinu sem og að það hafi hækkað hitastig jarðar. Haldi þróun á framleiðslu áfram mun magn koltvísýrings í andrúmsloftinu hafa tvöfaldast árið 2075, ef miðað er við stig koltvísýrings fyrir iðnaðarbyltingu; 280 parta fyrir hverja milljón—þ.e. tvöföldun innan líftíma margra sem eru á lífi í dag.

Binda mætti enda á þessa þróun með því að skipta alfarið yfir í vistvæna orkugjafa sem ekki fylgir losun gróðurhúsalofttegunda. Þar má nefna sólarorku sem verður kostnaðarsamkeppnishæf við jarðefnaeldsneytisorku á næstu árum. En líkurnar á því að okkur takist að halda okkur innan 500 parta fyrir hverja milljón virðast litlar og enn munum við standa eftir með töluvert CO2 í andrúmsloftinu sem mun taka náttúruna aldir að vinna úr.

Þó að flestir samþykki þessar staðreyndir er ég ekki sannfærður um að fólk átti sig á umfangi hættunnar sem stafar af framleiðslukerfi mannsins. Ég er ekki sérfræðingur í eðli þessarar hættu, en rúmur áhugi á vandanum nægir til að átta sig á því að áframhaldandi þróun gæti orsakað allt að þrisvar sinnum meiri hækkun hitastigs á jörðinni en þær 2°C sem aumir sáttmálar á borð við Parísarsáttmálann leggja upp með. Í ofanálagt munum við klára ræktanlega gróðurmold jarðarinnar innan 50 ára. Við erum í rauninni að ganga á birgðir jarðar og getu hennar til að hýsa og styðja lífform. Framleiðsla og notkun okkar í dag er 1,6 sinnum það sem lífumhverfi okkar getur stutt á endurnýjanlegan hátt (sjá Human Ecological Footprint: https://www.footprintnetwork.org/).

Á einhverjum tímapunkti verður umhverfisvandinn svo aðkallandi að jafnvel umhverfisafneitendur á borð við Trump og Abbott munu neyðast til að gangast við staðreyndum málsins (eða öllu heldur kenna Rússum eða Marx um vandann) og svara honum eins og Churchill gerði eitt sinn andspænis Þriðja Ríkinu (e. Third Reich)—með því að heyja þriðju heimstyrjöldina við heimshlýnunarvandann og aðsvífandi gereyðingu lífumhverfis af mannavöldum. Þegar sá dagur rennur upp mun ríkið eflast í bæði miðstýringu neyslu og framleiðslu, rétt eins og í seinni heimstyrjöldinni, þegar breska ríkið eyddi umfram skatttekjur allt að 40% landsframleiðslu sinnar árið 1940. Skömmtun mun takmarka neyslu, rétt eins og í seinni heimstyrjöldinni. Miðstýring ríkisins á tilraunum til koltvísýringsbindingar kemur í stað lausna hins frjálsa markaðar. Frumkvöðlar á opnum markaði munu eflaust enda á því að þróa og byggja tæknina á bak við bindingu koltvísýrings, en markaðurinn mun ekki sjá til þess að hefta umframneyslu okkar.

Ef við yfirstígum þessa áskorun sem tegund og siðmenning á þessari jörð, þá stöndum við andspænis þriðju áskorun kapítalismans: að útdeila ávöxtum framleiðslukerfis sem þarfnast hvorki verkalýðs né miðstéttar.

Úreldun verkalýðsins

Hvað varðar eitt atriði er ég alveg ósammála Mason; hlutverk vinnuafls í kapítalisma. Mason er talsmaður vinnuvirðiskenningarinnar (e. Labour Theory of Value, LTV) og notar hana til að greina hvernig kapítalísk þjóðfélög þróast. Ég hef lengi haldið því fram að díalektík Marx sé í mótsögn við hans helsta inntak, að umframvirði komi frá vinnuaflinu (Keen 1993; Keen 1993). Í bili nægir að segja að rökvillan (og jafnframt rökvilla Neóklassískra hagfræðikenninga) sé að vinnuafl og auðmagn eitt og sér nægi til framleiðslu.

Kenningin sem Mason aðhyllist er nefnilega í mótsögn við eitt af lögmálum alheimsins. Eðlisfræðingurinn Arthur Eddington komst vel að orði um lögmálið fyrir u.þ.b. öld síðan þegar hann sagði það vera „lögmálið sem mætti ekki óhlýðnast”; þ.e. lögmál varmafræðinnar. Fólk mætti hafa sínar „gælukenningar” sem stangast á við jöfnur Maxwells, jafnvel að tilraunir þeirra gætu rennt stoðum undir þær, en að „tja, þessir tilraunamenn geta verið klaufskir” og að „ef kenningin þín stangast á við annað lögmál varmafræðinnar þá get ég ekki vonast til neins af henni nema hún molni niður í djúpa skömm” (Eddington 1928, bls. 37). Ekkert getur orðið til án orku og hugmyndin um vinnuafl og vélar án orku er bull: vinnuafl án orku er liðið lík; vél án orku er stytta. Hin sanna uppspretta þess sem þjóðfélag mannsins framleiðir er hvorki vinnuafl né vélar heldur orka.

Vinnuafl og vélar eru auðvitað mikilvægar til að nýta orkuna, en í stað þess að vera uppspretta virðisins eru þessir hlutir tólin sem við höfum til að beisla orkuna sem stendur okkur til boða í alheiminum (fyrsta lögmál varmafræðinnar) til að breyta hluta af henni í eitthvað gagnlegt. Hluti orkunnar (sem og efni) er sóað í ferlinu, en óreiða í kerfinu verður að aukast (mengun og orkusóun) sé verið að umbreyta orku til að framleiða vörur (annað lögmál varmafræðinnar).

Sem fjölfræðingur var Marx meðvitaður um varmafræði og hafði á henni orð í bókinni Capital: „Sköpun verðmæta er umbreyting á afli vinnunnar í vinnuaflið sjálft. Afl vinnunnar er sjálf orkan sem ferðast úr nærðum líkama mannsins.” (Marx 1867, kafli 9, neðanmálsgrein 2.)

En hann áttaði sig ekki á því að vélarnar sjálfar beisla orku og breyta í vinnu, sem stangast á við lykilþátt vinnuafls-gildiskenningarinnar, að vélar bæti aðeins við framleiðslu því sem þær tapa í afskriftum.

Þrældómur manna (og skepna) er dæmi um kerfi sem breytir kaloríum í vinnu. Það kerfi fannst víða í fornum þjóðfélögum. Í þessu kerfi eru það kaloríur sem ráða framleiðslugetunni (sérstaklega í Suður-Amerískum siðmenningum, sem hvorki þróuðu hjólið né nýttu sér þurrlandsbúgripi). En eftir því sem tækninni fleygði fram juku vélarnar ólínulega við getu okkar til að umbreyta orku (nytsamleg orka frá ólærðu vinnuafli er rétt undir því sem 100W ljósapera framleiðir). Hlutverk vinnuaflsins þróaðist með tækninni og fór æ nær því að stýra vélunum í stað þess að umbreyta eigin kaloríum. Vinnuaflið er því ekki nýtt fyrir orku per se: inntaka orkunnar hjá ófaglærðu vinnuafli undir 100W á hvern mann er agnarsmátt miðað við orkunotkun meðalmanns í þróuðu hagkerfi sem er í kringum 10.000W.

Aukningar veraldlegra gæða síðastu fimm hundruð ára hafa ekki sprottið frá arðráni vinnuafls og verkalýðs heldur arðráni okkar á því sem Buckminster Fuller hefur kosið að kalla „orkuþræla” (sjá https://en.wikipedia.org/wiki/Energy_Slave). Aðkoma vinnuaflsins að beislun orkunnar hefur því verið í gegnum vélarnar sem þarf að stýra fremur en getu vinnuaflsins sjálfs til að umbreyta orku.

Í dag snýst framleiðslutækni—sem er fundin upp og sköpuð í heilum okkar, en veldur engri framleiðslu fyrr en hún er gerð vélræn—um að þróa vélar sem geta stýrt sér sjálfar. Dagar óþjálfaðs vinnuafls eru hér um bil taldir, og meira að segja háþróuðu vinnuafli mun á endanum vera rutt úr sessi af reikniritum (e. algorithms) (jafnvel þó okkur takist ekki að búa til almenna gervigreind (e. Artificial general intelligence, þ.e. gervigreind með sömu eða meiri almenna greind en við)). Meirihluti fólks verður óþarfur til að stýra vélum í átt að framleiðslu, og þar með hverfur geta þeirra til að semja um rentu af framleiðslugetunni (umframafgangnum).

Það eru tvær mögulegar sviðsmyndir fyrir slíkan heim: afbakaður heimur Hungurleikanna þar sem örsmár hópur fólks nýtur ávaxta vélanna á meðan öðrum er haldið í fátækt, þ.e.a.s. ef restin nær að halda sér á lífi til að byrja með, eða að ég vona; minna afbakaður heimur þar sem tekjudreifing byggir ekki á tilkalli okkar til vélanna og þeirra framleiðslu heldur sanngirni. Borgaralaun yrðu þar tekjulind langflestra.

Síðkapítalískur kapítalismi

Ef við lifum af þessar þrjár tilvistarlegu ógnir raungerist síðkapítaliskur heimur félags-, framleiðslu og peningakerfis þar sem hagnaðarhvati þjónar öðrum æðri markmiðum, þ.e. markmiðum umhverfisverndar og endurheimtingu lífkerfis eftir þær ógurlegu skemmdir sem við höfum unnið á því, þar sem við aðhyllumst hugmyndafræði byggða á Gaia-tilgátunni (Lovelock 1982) fremur en markaðshyggju, þar sem ríkisvald stýrir auðlindum okkar að endurheimtingu lífkerfisins, þar sem framleiðsluaðferðir og umhverfisreglugerðir verða sameign ríkis og einstaklings, þar sem fjármál og peningamyndun verða bæði opinber og einkageirans, þar sem máttur kapítalista og fjármálageirans til að stýra sínum högum og tækifærum verða innan skilyrða ríkis og eftirlits til að koma í veg fyrir umhverfistjón og að lokum, þar sem meirihlutinn sem telst ekki til kapítalista fá tekjur frá ríkinu í gegnum borgaralaun.

Þannig þjóðfélag verður í þeim skilningi síðkapítalískt, en þó einnig kapítalískt. Það sem kapítalísminn færir okkur og hefur framyfir önnur framleiðslukerfi er að hvetja til nýsköpunar á skilvirkari hátt en þræla-, léns- (e. feudalism) og sósíalísk hagkerfi (Schumpeter 1934; Janeway 2012; Mazzucato 2015). Við þurfum á virkni hagnaðarhvatans að halda. En dagar hinnar ótakmörkuðu markaðshugmyndafræði sem leyfir kapítalistum að einkavæða hagnað sinn og ríkisvæða tap sitt verða taldir.

Tilvitnanir

  • Deutsche Bundesbank (2017). “The role of banks, non- banks and the central bank in the money creation process.” + Deutsche Bundesbank Monthly Report: 13-33.
  • Eddington, A. S. (1928). The Nature Of The Physical World. Cambridge, Cambridge University Press.
  • Janeway, W. (2012). Doing Capitalism in the Innovation Economy. Cambridge, Cambridge University Press.
  • Keen, S. (1993). “The Misinterpretation of Marx’s Theory of Value.” Journal of the History of Economic Thought, + 15(2): 282-300.
  • Keen, S. (1993). “Use-Value, Exchange Value, and the Demise of Marx’s Labor Theory of Value.” Journal of the + History of Economic Thought 15(1): 107-121.
  • Keen, S. (2015). “The Macroeconomics of Endogenous Money: Response to Fiebiger, Palley & Lavoie.” Review of + Keynesian Economics, 3(2): 602 - 611.
  • Keen, S. (2017). Can We Avoid Another Financial Crisis? (The Future of Capitalism). London, Polity Press.
  • Lovelock, J. (1982). Gaia: A New Look at Life on Earth. Oxford, Oxford Paperbacks.
  • Marx, K. (1867). Capital. Moscow, Progress Press.
  • Marx, K. (1894). Capital Volume III, International Publishers.
  • Mason, P. (2017). Postcapitalism: A Guide to Our Future. London, Farrar Straus & Giroux.
  • Mazzucato, M. (2015). The Entrepreneurial State: Debunking Public vs. Private Sector Myths. New York, Anthem Press.
  • McLeay, M., A. Radia, et al. (2014). “Money creation in the modern economy.” Bank of England Quarterly Bulletin, 2014 Q1: 14-27.
  • Schumpeter, J. A. (1934). The theory of economic development : an inquiry into profits, capital, credit, interest and the business cycle. Cambridge, Massachusetts, Harvard University Press.
  • Vague, R. (2014). The Next Economic Disaster: Why It’s Coming and How to Avoid It. Pennsylvania, University of Pennsylvania Press.