Bankar skapa peninga og sá fræjum næsta hruns

November 6, 2025

„Hver sem er getur skapað peninga… vandamálið er að fá aðra til að samþykkja þá.“
— Hyman Minsky

Einn útbreiddasti og afdrifaríkasti misskilningur samtímans snýr að grunnvirkni hagkerfisins: Hvernig verða peningar til? Svarið sem kennt er í flestum inngangsnámskeiðum í hagfræði – og endurómað af stjórnmálafólki og jafnvel seðlabankastjórum – er að bankar séu hlutlausir milliliðir sem safna sparifé og lána það út. Þessi útskýring, sem enn má finna í færslum á Vísindavefnum og í máli áhrifamikilla hagfræðinga á Íslandi, er ekki bara einföldun. Hún er beinlínis röng.

Sú staðreynd að þessi mýta lifir góðu lífi, þrátt fyrir að hafa verið afsönnuð af seðlabönkum heims, kemur í veg fyrir að við skiljum hvernig fjármálabólur myndast og hvers vegna hagkerfið sveiflast milli uppsveiflu og hruns. Til að skilja þetta þurfum við að kafa ofan í bókhald bankanna.

Kjarni málsins: Lán skapa innistæður

Þegar banki veitir lán, fer hann ekki í hvelfinguna og sækir peningaseðla. Bankinn býr peningana til úr engu (ex nihilo) með því að skrá samtímis tvær færslur í efnahagsreikning sinn:

  1. Ný eign: Lánið sem er veitt. Þetta er krafa bankans á lántakandann.
  2. Ný skuld: Ný innistæða á bankareikningi lántakandans. Þetta er skuld bankans við viðskiptavininn.

Tökum dæmi. Guðrún fær 50 milljóna króna húsnæðislán. Á þeirri sekúndu sem lánið er samþykkt gerist eftirfarandi:

Efnahagsreikningur Bankans

EignirSkuldir og eigið fé
+ 50 m.kr. (Lán til Guðrúnar)+ 50 m.kr. (Innistæða Guðrúnar)

Efnahagsreikningur bankans stækkaði. Fimmtíu milljónir króna urðu til sem stafræn færsla. Þegar Guðrún borgar svo seljanda íbúðarinnar er hún einfaldlega að millifæra þessa nýsköpuðu peninga.

Á sama hátt, þegar lán er greitt niður, eyðast peningar. Höfuðstólsgreiðsla lækkar bæði lánaskuldina (eign bankans) og innistæðuna (skuld bankans). Yfir 95% alls peningamagns í umferð á Íslandi verður til með þessum hætti.

Sönnunargagnið: Raunveruleiki íslenska millibankakerfisins

Ef einhver efast enn, þá er sönnunin fólgin í virkni greiðslukerfa bankanna. Á Íslandi eru þetta Jafngreiðslukerfið (JG) fyrir smærri færslur og Stórgreiðslukerfið (SG) fyrir stærri færslur, rekin af Greiðsluveitunni í eigu Seðlabankans.

Lykilatriðið er þetta: Bankar lána fyrst og finna lausafé til að gera upp millifærslur við aðra banka eftir á.

Þegar Guðrún millifærir 50 m.kr. á seljanda sem er með reikning í öðrum banka, þarf banki Guðrúnar að eiga innistæður hjá Seðlabankanum (svokallaða seðlabankapeninga) til að gera upp skuldina við hinn bankann. Ef bankinn á ekki þessar innistæður, fær hann þær að láni, annaðhvort frá öðrum viðskiptabönkum eða beint frá Seðlabankanum gegn veði.

Seðlabankinn neitar aldrei að veita slíkt lán því það myndi stöðva greiðslukerfi landsins. Hlutverk hans er ekki að gefa leyfi fyrir lánveitingunni fyrirfram, heldur að sjá til þess að kerfið virki og stýra verðinu á þessu lausafé. Þetta verð eru stýrivextirnir.

Þetta afsannar endanlega mýtuna um „peningamargfaldarann“ þar sem bankar eiga að lána út margfeldi af innistæðum sínum hjá Seðlabankanum. Raunveruleikinn er öfugur: eftirspurn eftir lánum frá lánshæfum aðilum knýr peningamyndun áfram og þörfin fyrir uppgjör ákvarðar eftirspurn eftir seðlabankapeningum.

Hvað gefur peningum gildi?

Ef peningar verða til með áslætti á lyklaborð og gullfóturinn er löngu horfinn, hvað gefur þeim þá gildi? Svarið er einfalt: skattar.

Ríkið innheimtir skatta í sínum eigin gjaldmiðli. Þessi skylda skapar grunn-eftirspurn eftir krónunni. Við verðum að afla okkur króna til að standa skil á skattgreiðslum. Það sem við köllum peninga er í grunninn sú eining sem við treystum að sé gjaldgeng til að greiða skuldir okkar við ríkið.

Arfleifð Minsky: Af hverju stöðugleiki skapar óstöðugleika

Þegar við skiljum að einkabankar skapa megnið af öllum peningum með lánveitingum, verður kenning Hyman Minsky um fjármálalegan óstöðugleika kristaltær. Höfuðsetning hans var að stöðugleiki er óstöðugleikavaldur.

Í góðæri, þegar bjartsýni ríkir og eignaverð hækkar, gerist eftirfarandi:

  1. Áhættumat slaknar: Minningar um síðasta hrun fjara út. Bankar líta á hækkandi fasteignaverð og sjá „öruggari“ veð.
  2. Lánsfjárbóla myndast: Knúnir áfram af samkeppni og hagnaðarvon byrja bankar að dæla nýsköpuðum peningum inn í kerfið.
  3. Sjálfstyrkjandi hringrás: Þessir nýju peningar ýta eignaverði enn hærra, sem lætur lánin líta enn öruggari út og hvetur til enn frekari lánveitinga. Freistingin til að blása út fasteignabólu verður yfirþyrmandi því til skamms tíma lítur það út fyrir að vera skynsöm viðskipti fyrir alla.

Það er á þessum tímapunkti, þegar allt virðist spegilslétt og öruggt, sem kerfið er viðkvæmast. Það þarf aðeins smávægilegt áfall til að kveikja neistann og snúa hringrásinni við. Þegar það gerist er hrunið hafið.

Algengar mýtur og skýr svör

  • Mýta: Bankar lána út peninga sem aðrir hafa lagt inn. Staðreynd: Nei. Útlán skapa nýjar innistæður. Bankastarfsemi er drifkraftur peningamyndunar, ekki milliganga.

  • Mýta: Seðlabankinn stýrir peningamagni í umferð. Staðreynd: Nei. Seðlabankinn stýrir verðinu á lausafé til uppgjörs á millibankamarkaði (stýrivextir), ekki heildarmagni útlána einkabanka.

  • Mýta: Bindiskylda takmarkar getu banka til að lána. Staðreynd: Nei. Bindiskylda er kostnaður sem bankinn verðleggur inn í útlánavexti sína. Hún er tæki í þjóðhagsvarúð en ekki beinn hemill á lánveitingar. Banki lánar fyrst og uppfyllir kröfur á borð við bindiskyldu og eiginfjárkröfur eftir á.

Að skilja raunverulegt eðli peninga er forsenda þess að krefjast skynsamlegrar umgjörðar og eftirlits með fjármálakerfi sem hefur innbyggða hvata til að skapa óstöðugleika.


Þegar þessi staðreynd er viðurkennd verður rörsýn stjórnmála- og hagfræðiumræðunnar á halla á ríkisfjármálum sem helsta orsakavald verðbólgu fullkomlega fráleit. Ef við erum, líkt og Milton Friedman og fylgismenn hans, sannfærð um að „verðbólga sé alltaf og alls staðar peningalegt fyrirbæri,“ þá erum við að horfa á vitlausan stað.

Hver er raunverulegi peningaprentarinn?

Ef rúmlega 90% af nýju fjármagni í hagkerfinu verður til við lánveitingar banka, þá stendur halli ríkissjóðs fyrir innan við 10% af heildarmyndinni. Auk þess er eðli þessarar peningamyndunar gjörólíkt.

  • Bankakerfið: Skapar peninga í leit að hagnaði, oft með því að fjármagna kaup á fyrirliggjandi eignum (eins og fasteignum). Þessi peningamyndun er sveifluhvetjandi (pro-cyclical); hún eykst í góðæri og dregst saman í niðursveiflu, sem magnar upp bæði bólur og hrun.
  • Ríkissjóður: Þegar ríkið er rekið með halla, þá setur það meiri peninga inn í hagkerfið (með t.d. launagreiðslum, innviðaframkvæmdum, bótagreiðslum) en það tekur út (með sköttum). Þessi eyðsla er oft sveiflujafnandi (counter-cyclical); hún eykst sjálfkrafa í kreppu þegar atvinnuleysisbótum fjölgar og skatttekjur dragast saman.

Að auki er mikilvægt að skilja tæknilegu hliðina: Þegar ríkið greiðir laun kennara verða nýjar krónur til á bankareikningi hans. Heildarhalla ríkissjóðs er svo mætt með útgáfu ríkisskuldabréfa, sem í raun skipta á þessum nýju innlánspeningum fyrir vaxtaberandi eign. Ríkið er ekki að „sóa“ peningum; það er að færa fjármagn inn í hagkerfið sem er svo að mestu tekið til baka með sköttum eða breytt í sparifé í formi ríkisbréfa. Raunverulegi kostnaðurinn við hallarekstur er ekki hallinn sjálfur, heldur vaxtagreiðslurnar af útgefnum skuldabréfum.

Að einblína á fjárlagahallann í verðbólguskyni er því eins og að hafa áhyggjur af lekum krana á meðan flóðbylgja skellur á húsinu.

Lausnin á „ekki-vandanum“ sem batt hendur okkar

Þrátt fyrir þetta hefur áratugalangur áróður fyrir því að ríkishalli sé uppspretta alls ills náð eyrum stjórnmálamanna. Lausnin var innleiðing á regluverki á borð við Maastricht-skilyrðin í Evrópu og Lög um opinber fjármál (LOF) á Íslandi. Þessi lög setja strangar skorður við skuldum og halla ríkissjóðs.

Þar er meðal annars notast við mælikvarðann „heildarskuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF)“. Þessi mælikvarði er í besta falli villandi. Hann ber saman safnstærð (heildarskuldir sem safnast hafa upp yfir áratugi) við flæðistærð (árleg framleiðsla hagkerfisins). Það er eins og að meta fjárhagsstöðu heimilis með því að deila heildarupphæð húsnæðislánsins með vikulaunum. Það meikar engan sense.

Afleiðingin er hins vegar grafalvarleg. Ríki hafa í krafti þessara laga bundið sínar eigin hendur. Þau hafa afsalað sér getunni til að:

  1. Láta sjálfvirka jafnara virka: Í kreppu er eðlilegt og æskilegt að halli aukist til að dempa höggið. Lögin vinna gegn þessu.
  2. Fjárfesta í grunninnviðum: Reglurnar geta þvingað fram niðurskurð í viðhaldi og uppbyggingu vega, skóla og heilbrigðiskerfis – einmitt þeirra innviða sem framleiðni og hagvöxtur framtíðarinnar byggja á.
  3. Virkja hagkerfið: Þegar einkageirinn dregur saman seglin er ríkið eini aðilinn sem getur stigið inn með markvissum hætti og örvað eftirspurn til að koma í veg fyrir djúpa kreppu.

Þessi samfélagslega hugsun – að ríkið sé tæki borgaranna til að tryggja stöðugleika og velferð – er í húfi. Áratuga einbeiting á ríkissjóð sem vandamál hefur orðið að hættulegri kreddu sem hefur borist úr hagfræðideildum háskólanna, inn á Alþingi og út í almenna umræðu. Stjórnmálamenn, upp til hópa, virðast hvorki skilja eðli peningamyndunar né þá staðreynd að þeir hafa sjálfviljugir sett á sig handjárn sem koma í veg fyrir að þeir geti stýrt efnahagslífinu í þágu almennings.

Comments 0

No comments yet. Be the first to comment!