Jökull Sólberg

Eitt útilokar ekki annað
October 10, 2020

Greinin birtist fyrst á Stundinni.

Stíllinn á aðgerðum ríkisstjórnarinnar hefur verið að bregðast við COVID-kreppunni með snörpum sóknum, svokölluðum aðgerðapökkum. Hugsanlega mun tíminn leiða í ljós að þetta sé rétt nálgun sem byggir á sviðsmyndinni hverju sinni og þeim upplýsingum sem liggja fyrir. Lögum um opinber fjármál hefur verið vikið frá og hallareksturinn eykst. Í þessum aðgerðapökkum er oft talað um nýsköpun og innviðauppbyggingu en annars konar fjárfestingar fá minna vægi.

Sprotageirinn sem byggir á nýsköpun krefst þess að stofnendur geti tekið áhættur og aflað fjármagns í formi styrkja og fjárfestinga. Það er nauðsynlegt að styrkja stuðningsnet hins opinbera en þegar það kemur að yfirstandandi kreppu þá munu sprotafyrirtæki seint geta staðið ein og óstudd undir endurreisn efnahagsins. Öflugur stuðningur við nýsköpun er af hinu góða og ber að efla en á sama tíma megum við ekki missa sjónar á öðrum tækifærum. Hugbúnaðarfyrirtæki ráða alla jafna ekki mikið af fólki heldur vilja helst færri einstaklinga með mikla sérfræðiþekkingu. Á fyrstu stigum eru starfsmenn því frekar einsleitur hópur af fluggáfuðu og skemmtilegu fólki en hann er einungis lítil flís af þjóðinni.

Umræða um nýjan iðnað fellur í skuggann á nýsköpunarumræðunni. Ekki er hægt að segja að Íslandi hafi mótað sér iðnaðarstefnu á síðasta áratug, heldur hafi ferðamannageiri rekið hér á strendur eftir að aðrar stoðir höfðu þegar verið reistar að frumkvæði fyrri ríkisstjórna og frumkvöðla.

Orðið „iðnaður“ er gildishlaðið á Íslandi. Það er eflaust vegna tengingu við stóriðju sem er samofin pólitík ásamt því að vera hlutfallslega ríkjandi í útflutningi. Á timarit.is kemur orðið 30–40.000 sinnum fyrir á hverjum áratug frá 1970–1999. Á tímabilinu 2010–2019 kemur sama orð hins vegar aðeins um 14.000 sinnum fyrir. Sífellt bætist hins vegar í hópinn sem notar orðið nýsköpun yfir allt milli himins og jarðar, sérstaklega það sem áður kallaðist iðnaður. Fyrir vikið hefur umræðan um framþróun atvinnulífsins orðið ruglingsleg.

Iðnaði fylgir oft umhverfissóðaskapur. Stór verkefni, fjármögnuð af lífeyrissjóðum og innlendu bankakerfi, heppnast ekki öll og þol almennings fyrir slíkum stórtækum hugmyndum kann að fara dvínandi. Að neita sér hins vegar um nýjan iðnað gæti reynst dýrkeypt til lengri tíma. Þegar þjóðir draga úr framleiðslu- og stórtækum útflutningsiðnaði er það látið eftir öðrum sem flytja svo út afurðir sem hafa sitt sótspor, þó sjaldnast sé tekin full ábyrgð á notkun og neyslu heimafyrir. Í kjölfarinu á lokun verksmiðja verða störfin svo einsleitari og byggðin berskjaldaðri fyrir hnekkjum.

Okkur er sagt af forystu atvinnulífsins og sprotasenunnar að aukinn útflutningur felist í hugvitinu, sem sé óþrjótandi auðlind, en sjaldan er minnst á tækifæri í fjölbreyttari iðnaði. Margir komast upp með að selja hugvit og þjónustu, t.d. Danmörk sem á þjóðararf af öfundsverðum hugverkum og hönnun. En á bak við hvern kubb og stól er verksmiðja og iðnaður. Hugverkin spretta ekki upp í tómi og nálægð við verksmiðjur hafa leyft ófáum iðnjöfrum að skjóta samkeppninni ref fyrir rass.

Til að tryggja að hugvitsgeiri blómstri munar miklu að hafa markvissa iðnaðarstefnu, rausnarlegan stuðning frá hinu opinbera í upphafi og fjölbreytta framleiðslu. Óáreitt flæði fjármagns og aðild að stóru markaðssvæði getur ekki verið uppistaða iðnaðarstefnu ein og sér.

Gott dæmi um lið í öflugri iðnaðarstefnu væri stuðningur og samstarf um nýjar rafhlöðuverksmiðjur staðsettar á Íslandi (e. gigafactories). Slíkum verksmiðjum fjölgar nú ört og stuðla þær að minni losun í samgöngum. Fram undan gæti verið kreppa á raforkumarkaði vegna erfiðleika á álframleiðslu og það þarf að laða hingað næstu kynslóð kaupenda. Svíþjóð hefur eignast Northvolt, eitt af fjölmörgum smærri frambærilegum rafhlöðufyrirtækjum. Í Suður-Kóreu eru risarnir tveir, LG og Samsung. Kína hefur fangað þennan iðnað með ógnarhraða. Panasonic er að vinna með Toyota í nýrri kynslóð rafhlaðna. Tesla er að koma sér í fremstu víglínu með eigin framleiðslu og samþættingu við sína bíla sem gerir þá einstaka.

Gigasmiðjurnar munu poppa upp úti um allt. Lágt raforkuverð þarf að vega og meta ásamt öðrum þáttum við framleiðslu á rafhlöðum. Ein verskmiðja, eins og sú sem er í Nevada á vegum Tesla, þarf um 100 mw, um það bil fimmtung af orkuþörf álvers. Hagkvæmur raforkusamningur getur munað 3–5% af heildarverði á rafhlöðupakkningu og hrein orka kæmi til með að minnka kolefnisfótspor framleiðslunnar. Við gætum laðað til okkar um fimm svona verksmiðjur á fimm árum. Sú sjötta gæti verið alíslensk. Það væri stuð ef til dæmis íslenskt innanlandsflug væri knúið íslenskum rafhlöðum.