Evrópa er áhrifalaus á stóra sviðinu

21. nóvember 2025

Samkvæmt vef Utanríkisráðuneytisins hefur Ísland varið fjórðung af 11,5 milljarða króna stuðningi fyrir Úkraínu í vopnakaup sem verst innrás Rússlands. Með þessu hafa íslensk stjórnvöld, án aðkomu almennings eða umræðum á Alþingi, rofið áratuga langa hefð fyrir annars konar stuðningi í stríðsátökum, að standa fyrir friðarleitunum í stað hervæðingar og að hallast í átt að hlutleysi eins og raunhæft er þrátt fyrir að vera hluti af Atlantshafsbandalaginu.

En hverju hafa þessi millljarðar skilað? Nú lítur út fyrir að það eigi að nýta spillingarmál í kringum Zelensky til að þrýsta Úkraínu inn í friðarsamkomulag samið bak við tjöldin af Bandaríkjunum. Svo virðist sem Evrópuþjóðir hafi ekki haft neina aðkomu að drögunum og samningsgerð, né vitað af ferlinu eða fengið upplýsingar. Ef öld niðurlægingar var ekki hafin fyrir Evrópu þá er hún nú hafin.

Ef Evrópuþjóðirnar vildu hafa áhrif á framgang stríðsins hefði þurft að stíga fram með einhverjar lausnir í átt að friði. Öll áheyrn bandaríkjaforseta var þvert á móti nýtt til að draga stríðið á langinn, stigmagna hervæðingu Úkraínu þó spilling grasseri, einangra Rússland efnahagslega þó það sprengi upp orkukostnað og koma öllum friðarleitunum í uppnám þó allt langvarandi öryggi byggi á vopnahléum og fundarhaldi.

Evrópulöndin tala digurbarkalega á hátíðardögum um vestræn gildi og siguráætlanir — en vilja að Úkraína fórni sér fyrir þann móralska málstað og virðist halda að úkraínskur almenningur sé tilbúinn til að berjast til síðasta manns svo lengi sem vopnin flæða til þeirra. Fjölmiðlar draga svo upp mynd samstöðu milli þjóða og láta eins og Gallup kannanir séu ekki til sem sýna fram á hið gagnstæða, að flestir Úkraínumenn vilji semja jafnvel þó það kosti fórnir á landsvæðum. Þetta er veruleikafyrring sem hefur dregið úr geopólitísku vægi Evrópuþjóðanna síðustu ár. Þegar orðræða Ursulu, Þorgerðar, Merz, Kallas og Starmer mætir raunveruleikanum minnkar traustið því stríð eru vinsælli hjá leiðtogum en almenningi. Þau tala um að þétta raðirnar en þau eru undir hælnum á Bandarísku öryggisregnhlífinni, háð vopnakaupum, óhagkvæmum viðskiptasamningum og orkuinnflutningi. Þessi kynslóð Evrópuleiðtoga talar út og suður en virðist gleyma að þau eru flest talsvert óvinsælli í sínum heimalöndum en Trump í sínu - það sýna kannanir (Macron 12%, Starmer 23%, Merz 29%, Trump 41%).

Sú staðreynd að Evrópa ræður engu um eigið öryggi, talar óábyrgt um hervæðingu og fær ekki sæti við borðið í sögulegum samningaviðræðum — þrátt fyrir að hafa hlaupið í skarðið með fjárhagsstuðningi þegar Bandaríkin drógu úr sínum — gæti verið til marks um að Bandaríkin horfi á Evrópu sem „lúsera“; sem áhrifalausan samstarfsaðila sem hægt er að „láta borga“.

Drög að friðarsamkomulagi virðast renna stoðum undir þessa niðurstöðu. Samkvæmt þeim þarf Rússland aðeins að verja þriðjungi af frystum eignum sínum til uppbyggingar í Úkraínu á meðan Evrópuríkin þurfa að jafna það með nýju framlagi frá skattgreiðendum. Slíkir skilmálar gefa til kynna að litið sé svo á að Evrópulönd beri einhverja ábyrgð á því hvernig stríðið hefur þróast og hversu lengi hefur dregist að semja.

Í því samhengi er oft bent á aðkomu Boris Johnson, þáverandi forsætisráðherra Bretlands. Johnson er talinn hafa sannfært úkraínsk stjórnvöld vorið 2022 um að hafna nær fullbúnu friðarsamkomulagi við Rússa og treysta þess í stað á hernaðarlegan stuðning Vesturlanda til að halda stríðinu áfram. Síðar var hann svo aftur mættur til Úkraínu í fylgd með auðkýfingi sem sóttist eftir samningum.

Líklegt er að þessi tvö atriði — annars vegar lítið álit Bandaríkjanna á Evrópu og hins vegar sú skoðun að Evrópuleiðtogar beri ábyrgð á langdregnu stríði — spili saman. Sú afstaða mótar viðhorf bæði Rússlands og Bandaríkjanna og grefur þar með undan vægi Evrópu við að stuðla að friði í sinni eigin heimsálfu.

Comments 0

No comments yet. Be the first to comment!