Jökull Sólberg

Peningastefnan á að vera sjálfstæð
August 27, 2019
Banner

Útgáfa af greininni birtist í Stundinni 26. ágúst undir fyrirsögninni Fern rök gegn upptöku evru

  • ⁣27. ágúst 2019: Útgáfa
  • ⁣18. nóvember 2020: Uppfært fyrir 2020. Einfaldað.

Ísland er með eina minnstu sjálfstæðu mynt í heimi. Margir halda því fram að sjálfstæðri útgáfu gjaldmiðils fylgi aukinn kostnaður sem fellur á einkageira í formi vaxta, sem séu eðli málsins samkvæmt hærri en á stærri myntsvæðum. Því er jafnframt haldið fram að atvinnulífið beri þungar birgðir í formi gengisáhættu sem geri áætlanagerð erfiðari. Ýmis önnur rök með evru og gegn krónu hafa komið fram á síðustu árum.

Umfjöllunin skiptist í fjóra kafla:

  1. Gengissveiflur: Sveigjanleiki sem felst í gengisfellingu í efnahagsáfalli er verðmætari en ábati af því að draga úr gengissveiflum með upptöku evru
  2. Vaxtagreiðslur: Vaxtagreiðslur einkageira og heimila hafa ekkert með krónu að gera heldur hugmyndafræðilega úrelda vaxtastefnu
  3. Lýðræðishalli: Ytra aðhald í peningastefnu og ríkisfjármálum fylgir djúpstæður lýðræðishalli og óeftirsóknarverð sameining bankakerfa
  4. Ríkisfjármál: Ríkissjóðir sem vilja tryggja jöfnuð og geta brugðist með afgerandi hætti við kreppum verða að gefa út eigin mynt

Fyrstu tveir kaflarnir eru andsvör við tveimur algengustu rökum sem notuð eru gegn krónu og með upptöku evru. Seinni tveir kaflarnir varpa ljósi á tvö atriði sem komast sjaldan á dagskrá þegar peningamál eru rædd.

Gengissveiflur

Því hefur verið haldið fram að örmynt sé í eðli sínu óstöðug og háð snarpari og tíðari gengissveiflum. Gjaldeyrissveiflur eru hluti af áætlanagerð og rekstraráhættu á Íslandi. Allur rekstur er háður óvissu og á Íslandi erum við sérstaklega berskjölduð vegna einhæfrar innlendrar framleiðslu, fárra útflutningsstoða og í ljósi þess hversu innflutningsháð hagkerfið er.

Evrusvæðið keypti 44% af útflutningsverðmætum okkar á tímabilinu 2010-2017. Á síðustu tíu árum er munur á hæsta og lægsta punkti á evru gegn krónu 72%. Þessi munur á evru og dollar á sama tímabili er 46%. Áhugavert er hinsvegar að sjá að á dollar og krónu er ekki nema 44% munur. Heildræn greining á gjaldeyrissveiflum er ekki einföld en evran er langt því frá að vera laus við sveiflur.

Gengissveiflur hverfa ekki með evru en sagan gefur sterka vísbendingu um að heildarsveiflur minnki við upptöku evru. Sá ábati sem fylgir þeim stöðugleika fæst þó aðeins með því að fórna bæði vaxtastefnu og möguleika á gengisfellingu. Í efnahagsáfalli, t.d. ef útflutningsstoð á borð við ferðamannabúskap bíður hnekki, mundi krónan óumdeilanlega falla. Aðlögun við slíku áfalli hefur sögulega farið í gegnum gengisfall og fjárlagahalla þegar almenningur gengur á sjálfvirka tryggingasjóði og skatttekjur dragast saman. Sjálfvirkir jafnarar eins og atvinnuleysistryggingar viðhalda kaupmætti þeirra sem standa höllum fæti en verðlag hækkar yfirleitt í kjölfarið þar sem fleiri krónur sem spretta frá ríkissjóði og dælast af gjaldeyrismarkaði hringsóla um minna hagkerfi, færri störf og færri aðföng. Engin aðlögun er sársaukalaus en þetta ferli viðheldur jöfnuði og heldur atvinnustigi eins háu og mögulegt er. Verðlag hækkar, krónan lækkar og aðföng hagkerfisins færast frá einkageira til hins opinbera þar til einkageiri tekur við sér aftur.

Fyrir tíð evrunnar voru gerðar margar tilraunir til að tengja saman hagkerfi með fastgengisstefnu. Frakkland dróst afturúr og þurfti margoft að fella gengið á móti þýska markinu. Það var bæði óvinsæl og sársaukafull aðgerð. Í aðdraganda gengisfellingar grefur undan útflutningsgeirum sem þurfa að skera niður. Viðskiptahalli kallar á lántöku sem reynist svo erfitt að standa undir nema með launaskerðingum. Markaðir fara að veðja á yfirvofandi gengisfellingu með tilheyrandi fjármagnsflutningum og stjórnmálamenn fara að breiða yfir raunvanda með ásökunum á hendur útflutningsþjóða um að hafa sitt gengi of hátt skrifaðhnútur.

Það verður ekki bæði sleppt og haldið þegar gengissveigjanleiki- og óstöðugleiki eru annarsvegar. Talsmenn evru tala oft niður sveigjanleikann og óstöðugleikinn er gerður að grýlu. Ég þekki það sjálfur af eigin raun að hafa rekstur á Íslandi en fjárfestingu og tekjur í erlendum gjaldeyri. Ef krónan styrkist þá aukast útgjöld. Í mínu tilfelli var að endingu ákveðið að færa starfsemina erlendis en það hafði meira með launakostnað hérlendis að gera en gengisstöðugleika. Þegar betur var að gáð kom reyndar í ljós að breytingar á gengi höfðu mun meira með fall pundsins að gera en styrkingu krónunnar.

Seðlabankinn er einhverstaðar á milli fastgengis- og flotgengisstefnu. Hann er virkur þátttakandi á gjaldeyrismarkaði sem fælir frá tilgangslaus spáviðskipti. Þegar krónan fer upp eða niður er það vonandi réttmæt endurspeglun á undirliggjandi verðmæta okkar útflutnings. Kaupmenn, frumkvöðlar og flestir aðrir rekstraraðilar þurfa að verja sig fyrir gengisáhættu. Það sama á við í ótal löndum, t.d. Bretlandi, Svíþjóð, Japan og Noregi.

Vaxtamunur

Því er oft haldið fram að krónu fylgi kostnaður í formi vaxtagreiðslna sem fyrirtæki og heimili bera. Með inngöngu í myntbandalag Evrópu væri vaxtamunur við okkar viðskiptalönd mun minni og vaxtastig almennt lægra. Grundvöllur slíkrar röksemdafærslu er að lítil opin hagkerfi þurfi á vaxtamun að halda til að halda aftur af verðbólgu og forðast fjármagnsflótta (e. capital flight). Á árunum eftir hrun hefur verðbólga nálgast viðmið Seðlabanka og verið undir viðmiðum síðan 2014. Seðlabankinn hefur í kjölfarið lækkað vexti.

Víða um heim er vaxtastefnuaðhald gagnrýnt fyrir að vera bitlaust stjórntæki. Sífellt fleiri úr fræðasamfélaginu segja áhrif stýrivaxta á hagvöxt oftúlkuðkelton.

Það er óþarfi að sækja vatnið yfir lækinn með upptöku evru og vaxtastefnunni sem henni fylgir. Vaxtamunur í bland við óheft flæði fjármagns er eitruð blanda fyrir lítið hagkerfi með eigin mynt. Vaxtamunur og hávaxtastefna er okkar sjálfskaparvíti, en að sama skapi hefur okkar eigin seðlabanki – sem svarar til lýðræðislega kjörinna fulltrúa – öll tól og tæki til að vinda ofan af þeirri stefnu. Lítið hagkerfi eins og Ísland á frekar að hafa viðvarandi viðskiptahöft sem kæfir ekki viðskiptalífið en dregur úr skaðsömum fjármagnsflutningum og tilgangslausri spákaupmennsku. Virk þátttaka seðlabanka á gjaldeyrismarkaði með stóran gjaldeyrisforða er líka stórt skref í rétta átt.

Lýðræðisleg peningastjórn

Á Íslandi er seðlabankinn hluti af innlendri stjórnsýslu. Seðlabankinn sér um uppgjör ríkisfjármála og er skyldugur til að gefa út ríkisskuldabréf til að brúa bil ríkisskulda. Seðlabanki Íslands lýtur lögum sem eru sett af lýðræðislega kjörnum fulltrúum á Alþingi. Séu lögin brotin er það í höndum íslenskra dómstóla að dæma um þau brot en ekkert ytra vald getur sektað eða beitt þjóðina þvingunum í slíkum tilvikum. Ísland er aðili að evrópsku viðskiptasambandi (EES) og ber að virða reglur þess samstarfs, en fyrirkomulag peningastefnu og lög um opinber fjármál eru ekki hluti af þeim skuldbindingum. Ríkissjóður gefur út krónur, innheimtir skattstofn í krónum og setur sér sínar eigin reglur um skuldasöfnun.

Á evrusvæðinu eru ríkissjóðir notendur en ekki útgefendur þeirrar myntar sem þeir styðjast við í sínum rekstri og skattheimtu. Peningastefna þeirra fylgir myntsamstarfinu með tilheyrandi takmörkunum. Refsing vofir yfir ríkjum sem brjóta ríkisskuldareglur. Kjósendur eru ekki vel í stakk búnir til að hafa áhrif á það lýðræðisferli á stóru myntsvæði — sér í lagi kjósendahópar smærri ríkja, sbr. Syriza-flokkinn í Grikklandi sem gerði árangurslausa atlögu að því að semja um sanngjarnari skuldameðferð í kjölfari efnahagskrísunnar 2008.

Í augum margra evrusinna er eftirsóknarvert að ytri stofnun beiti aðhaldi og aga – orðræða sem var einnig vinsæl í aðdraganda evrunnar. Sjálfvirkir jafnarar ríkissjóðs juku ríkisskuldir margfalt í hruninu á Íslandi og við þverbrutum skuldareglur sem þekkjast í dag hérlendis sem og á evrusvæðinu. Hefðum við viljað að aðrir aðilar hefðu spornað við því og dregið úr félagslegu réttlæti í þeirri kreppu? Grikkland þarf enn þann dag í dag samþykki Þjóðverja fyrir fjárlögum hvers árs. Skuldagreiðslur Grikklands voru notaðar til að bjarga þýskum bönkum í kjölfar efnahagskrísunnar 2008.

Leiða má líkur að því að þessi harka og agi hafi átt þátt í að ýta undir þjóðernispopúlisma í Evrópu í kjölfar skuldakrísunnar 2015ashoka. Slíkar sviptingar í stjórnmálum hafa ekki gert vart við sig í sama mæli hérlendis. Við semjum við okkur sjálf og njótum sjálfræðis í málefnum fjármálaeftirlits, ríkisfjármála og peningastefnu.

Sjálfstæð peningastefna þarf ekki að hafa neitt með það að gera hvaða efnahagssvæði við viljum samtvinnast og hvaða alþjóðasamstarfi við viljum taka þátt í. Við getum gengið alla leið í Evrópusambandið án upptöku evru. Við erum þegar hlutaðilar í ETS viðskiptakerfinu um útblástursheimildir stóriðju og flugsamgangna og höfum samið við Evrópusambandið um að draga úr losun á beinni ábyrgð stjórnvalda. Evran er ekki forsenda alþjóðasamstarfs eða dýpri samþættingar. Þvert á móti hefur hún komið í veg fyrir eðlilegt aðlögunarferli í kjölfar kreppu og hægt á bata margra hagkerfa með tilheyrandi óánægju, harmleik og félagslegu óréttlæti sem kreppum fylgir.

Óheft opinber fjármál

Ef heimurinn siglir í kreppu getur ríkissjóður Íslands óáreittur farið í innviðauppbyggingu án þess að eiga á hættu að fá sektir að utan. Óheftar ríkisskuldir stuðla að hærra atvinnustigi og afstýra niðursveiflu. Evrulöndin eru bundin ströngum ríkisfjárlagareglum samkvæmt Stöðugleika- og vaxtarsamningnum (e. Stability and Growth Pact) og Maastricht-sáttmálanum. LOF, Lög um opinber fjármál, svipa til þessa sáttmála en eru enn strangari: 30% ríkisskuldir í hlutfalli við landsframleiðslu hverju sinni, ekki 60% eins og í tilfelli evrusvæðsins. Samantekt um fjármálareglur laga um opinber fjármál er að finna á vef Stjórnarráðsins:

Skilyrði fjármálastefnu og fjármálaáætlun svokallaðar fjármálareglur fela í sér í fyrsta lagi að heildarjöfnuður ríkis og sveitarfélaga yfir hvert fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu. Í öðru lagi að heildarskuldir hins opinbera, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, séu lægri en nemur 30% af vergri landsframleiðslu. Í þriðja lagi gera lögin kröfu um markvissa lækkun skulda á meðan skuldir eru yfir 30% viðmiðinu.

Ég feitletraði það sem skiptir máli. Við öpum upp eftir úreldum ríkisfjármálalögum innblásin af þýskri speki þar sem langvarandi afgangur ríkissjóðs þykir heilbrigðismerki. Slíkar mýtur eiga ekkert skylt við okkar aðstæður og það svigrúm sem ríkissjóðir hafa til að efla hagkerfi.

Við setjum okkur ríkisskuldareglur sjálf og getum breytt þeim eða afnumið með nýjum stjórnarflokkum eða í neyð. Innan evrusvæðisins eru ríki hins vegar sektuð fyrir að brjóta ríkisskuldareglur og að breyta þeim er hægara sagt en gert. Þessar reglur höfum við áður brotið á fullkomlega réttmætum forsendum og án þess að um það hafi verið kosið eða rætt. Um er að ræða sjálfvirkan samfélagssáttmála sem tryggir jöfnuð og hjálpar hagkerfum að rétta úr kútnum eftir efnahagsleg áföll.

Niðurlag

Það eru umbrotatímar í hugmyndafræði hagstjórnar. Ýmsir kostir sameiginlegrar myntar sem stjórnmálamenn boðuðu og vonuðust eftir hefur ekki raungerst. Milliríkjaviðskipti jukust aðeins lítillega á meðan stórfelldir fjármagnsflutningar áttu sér stað innan bankakerfisins með tilheyrandi vogun og tilgangslausri fjármagnsmyndun. Flutningur fjármagns á milli evrópskra banka fyrir hrun reyndist auka á óstöðugleika hagkerfa. Margir sakna nú staðbundnari og stöðugri bankastarfsemi með jarðbundnari tilgangi. Evrópusamstarfið var lengi vel byggt á hugmyndafræði um samstarf margra ríkja sem hver um sig hafði sterka lýðræðistengingu. Evran hefur unnið gegn því verðuga markmiði.

Peningamál hafa sterka lýðræðislega skírskotun sem myntbandalaginu annaðhvort yfirsást eða fórnaði í nafni pólitísks samstarfs. Margir hagfræðingar vöruðu við þeim afleiðingum sem hafa í dag raungerst; tjóðruð ríkisfjármál, ílengdar kreppur og aukið ójafnvægi milli ríkja með sömu vaxtastefnu og gengi en misöflugan útflutning og ólík hagkerfi.

Krónan er ekki fullkomin en það er engum til bóta að kenna henni um allt sem illa fer og skauta framhjá því tjóni á lýðræði og efnahagi sem evrusvæðið stendur frammi fyrir í dag. Hönnun evrunnar byggði á veikum fræðilegum grunni sem einkennist af ofurtrú á stýrivöxtum og ósveigjanlegum ríkisfjármálareglum. Horft var með öfundaraugum til dollarans og þeirra forréttinda sem bandarískt hagkerfi nýtur. En evran misheppnaðist. Sem betur fer stöndum við utan hennar og vonandi verður það þannig áfram.


  1. Evran var meðal annars hugsuð sem langvarandi lausn á þessum vanda, en þetta er eins og að binda saman skó með fastari hnút.
  2. Paul Krugman Asked Me About Modern Monetary Theory. Here Are 4 Answers.
  3. The euro area’s deepening political divide