ESB: Markaðslausn sem félagshyggjufólk á ekki að kaupa

November 12, 2025

Evrópuumræðan á Íslandi er föst í vítahring. Annars vegar heyrum við tæknilegar útlistanir á kostum og göllum, oftast bundnar við gjaldmiðil og fisk. Hins vegar dynja á okkur innantóm slagorð um fullveldi. Það sem skortir í þessa umræðu er öll dýpt og heildarsýn á eðli Evrópusambandsins í sögulegu og hugmyndafræðilegu samhengi. Aðild er ekki einfalt plús-og-mínus dæmi. Frá sjónarhóli vinstrimanns á að vera ómögulegt að styðja inngöngu, því Evrópusambandið er ekki samfélag þjóða í sinni tærustu mynd; það er fyrst og fremst lagalegur og stofnanalegur rammi um kapítalisma.

Gleymum fiskinum, ræðum valdið

Áhersla stuðningsfólks á lægri vexti með Evrunni er villandi beita. Háir vextir á Íslandi eru ekki náttúrulögmál; þeir eru afleiðing pólitískra ákvarðana um séreignastefnu og óhefta markaðsvæðingu sem vinstrið hefur barist gegn áratugum saman. Að selja ESB-aðild sem lausn á þeim vanda er að selja markaðshyggjulyf við markaðshyggjusjúkdómi.

Hið raunverulega áhyggjuefni liggur mun dýpra. Það snýst um getu lýðræðislega kjörinna stjórnvalda til að grípa inn í hagkerfið í þágu almennings. Í grunninn má ríkið ekki stíga inn í atvinnuvegi og uppbyggingu nema það falli nákvæmlega að fyrirfram skilgreindum markaðsramma ESB. Reglur um ríkisstyrki, sem hljóma sakleysislega, eru í raun járnbúr. Þær koma í veg fyrir að ríkið geti stutt við bakið á nýjum atvinnugreinum, bjargað mikilvægum fyrirtækjum frá falli, eða rekið þjónustu á forsendum samfélagslegra þarfa frekar en markaðslögmála. Hugmyndin um að þjóðnýta eða færa grunninnviði á borð við orkugeirann alfarið í ríkiseigu mætir strax regluverki sem krefst samkeppni og markaðsaðgangs. Valdið til að móta atvinnustefnu sem þjónar fólki, ekki fjármagni, er í grunninn tekið af okkur.

Fjárlög í fjötrum

Ekki síður alvarlegt er framsal á valdi yfir ríkisfjármálunum. Fjárlagagerð, hið mikilvægasta verkfæri hvers þings til að forgangsraða í þágu þjóðarinnar, er fótum troðin með skuldareglum ESB. Þessar reglur um hámarks halla á ríkissjóði og heildarskuldir ríkisins, sem við myndum hætta að setja okkur sjálf, verða að ytra aðhaldi sem þvingar fram niðurskurð og aðhaldsstefnu.

Ímyndum okkur djúpa efnahagskreppu. Í stað þess að Alþingi geti ákveðið að örva hagkerfið með stórfelldri innspýtingu í velferðarkerfið, heilbrigðisþjónustu og innviði, yrðum við bundin af reglum sem krefjast þess að við spörum okkur út úr vandanum. Þetta er ekki tæknilegt atriði, þetta er pólitísk ákvörðun um að forgangsraða stöðugleika fjármálakerfisins fram yfir velferð almennings. Fyrir félagshyggjufólk er slík hugmyndafræði óhugsandi.

Pólitískur farangur sem við viljum ekki bera

Að lokum er það hin pólitíska vídd. Evrópusambandið er ekki hlutlaus klúbbur. Það er geopolitískt afl með skýra stefnu. Forysta sambandsins og stærstu aðildarríkin eru staðföst í stuðningi sínum við Zionisma og fylgja NATO og Bandaríkjunum í einu og öllu í þeirra hernaðarbrölti. Fyrir vinstri hreyfingu sem berst fyrir friði, alþjóðalögum og réttindum Palestínumanna er það óbærileg tilhugsun að verða þátttakandi í slíku bandalagi.

Aðild Íslands að Evrópusambandinu er því ekki spurning um hvort við fáum undanþágu fyrir makríl eða hvort Jón í næsta húsi fái lægri vexti af húsnæðisláninu sínu. Hún snýst um hvort við viljum festa kapítalismann í stjórnarskrá, afsala okkur stjórn á efnahagsmálum og gerast þátttakendur í hernaðarbandalagi í sauðargæru. Svarið frá sjónarhóli vinstrisins hlýtur að vera og verður alltaf að vera nei. Það er kominn tími til að rífa umræðuna upp úr þessum þröngu skotgröfum og horfast í augu við heildarmyndina.

Comments 0

No comments yet. Be the first to comment!