Jökull Sólberg

Blásið á glóðir eða í blöðrur
10. febrúar 2021
Banner

Tesla hefur að undanförnu fjárfest í Bitcoin fyrir ríflega 1,5 milljarða bandaríkjadala og hyggst styðja við greiðslur af þeim toga. Á samfélagsmiðlum má heyra fögnuðinn víða þar sem ýmsir telja þetta renna stoðum undir ágæti rafmynta og spá þeim góðu brautargengi í framtíðinni — jafnvel að venjulegir gjaldmiðlar sem eru gefnar út af ríkissjóðum séu að renna sitt skeið á enda og beri að leggja niður eða tvinna við bálkakeðjur með ýmsu móti.

Á hinn bóginn er margt sem bendir til að um eignabólu sé að ræða fremur en byltingu í greiðslumiðlum og peningastjórn. Bólurnar hafa víðar gert vart við sig að undanförnu. Vaxtalækkanir hafa hleypt verulegu lífi í fasteignamarkaðinn hér á landi þrátt fyrir ládeyðu í efnahagi og stóraukið atvinnuleysi. Í lágvaxtaumhverfi verður leitað í auknum mæli í fjárfestingar sem auka áhættu sem dregur úr stöðugleika í hagkerfinu. Fréttir af hlutabréfaviðskiptum í kauphöllum Wall Street gefa vart annað til kynna en að undirliggjandi frammistaða skráðra félaga spili hverfandi hlutverk í væntri ávöxtun, og að hjarðhegðun og spákaupmennska hafi riðið sér til rúms sem ráðandi þáttur í væntingum.

Það eru til tvennskonar bólur; annarsvegar þær sem springa, skilja lítið eftir sig en geta valdið skaða á efnahagsreikningi heimila og svo hinar sem skilja eftir sig einhverskonar nothæf innviði eða tækni sem var „offjárfest“ í.

Árið 2001 sprakk netbólan. Þar var veðjað á hlutabréf og fjárfestar settu mikið fjármagn í fyrirtæki sem lítið var vitað um. Stafrænu innviðirnir sem var fjárfest í áttu hinsvegar eftir að nýtast. Óvíst er að þeir innviðir hefðu byggst upp jafn snemma nema fyrir „æsinginn“ á hlutabréfamarkaði. Heimilin voru nokkurnveginn varinn þegar þessi bóla sprakk og því voru heildaráhrifin þau að almenningur naut góðs af þessari bjartsýni fjárfesta.

Það þarf ekki að fara í saumana á bólunni sem sprakk 2008. Þar spilaði skuldsetning einstaklinga og heimila lykilhlutverk. Þegar fasteignabólan sprakk fór allt bankakerfið á hliðina og ríkissjóðir fundu sig knúna til að gera við efnahagsreikninga einkageira.

Nú erum við aftur að þenja út fasteignaverð og viðskipti með aðrar eignir eru froðukenndar. Það er álitamál hvort að fjárfesting í Bitcoin og öðrum rafmyntum muni skilja eftir sig nýja innviði eða verðmæta þekkingu þegar bólan springur. Ég er þeirrar skoðunar að svo sé ekki heldur séu bálkakeðjur og rafmyntir innihaldsrýrar með tilliti til nothæfra innviða fyrir almenning. Millifærslur eru hægari og reksturinn er margfalt orkufrekari. Það sem verra er, er að aðgengi að nýjum peningum er í beinu hlutfalli við eignir og tekjur í hagkerfinu sem þýðir að rafmyntir geta ekki stuðlað að því að draga úr ójöfnuði. Ríkisstjórnir sem gefa út eigin gjaldmiðil geta miðlað peningamyndun í samfélagsverkefni og aukið á prógressífa skattheimtu frá hinum ríku og fáu á móti. Þannig geta peningarnir flætt til að mæta efnahagsaðstæðum og stuðlað að bættri nýtingu aðfanga hagkerfisins með skýrt lýðræðislegt umboð á bak við fjárlög hvers árs. Með bálkakeðjuvæðingu seðlabanka og skattheimtu í rafmyntum væri tekið fyrir slík fjárlög og sveiflujafnara.

Annað sem gerist í bólum er að sjálfsmynd þátttakenda þenst út samhliða tálsýninni um eignamyndun. Umræðan verður í senn leiðinlegri, innantómari og fjarlægist hversdagslífið og daglegar áskoranir fólks. Fólki gremst það að vera að missa af einhverju, fer að spyrja hvernig hægt sé að taka þátt; græða á fasteignum, kaupa GameStonks, Bitcoin o.s.frv. Hagkerfið leitar í tilgangslausa froðu og bólan þenst út þeim mun hraðar og þá verður hvellurinn hærri.

Jákvæðasta bólan fram til þess var líklega offjárfesting í lestum. Þegar sú bóla sprakk voru komnir lestarteinar á milli byggða sem blésu lífi í byggðir, atvinnu og vöruskipti um allan heim.

Getum við séð fyrir okkur bjartsýniskast einkageira yfir grænum fjárfestingum? Í slíkri bólu munu fjárfestar tapa óhjákvæmilega innan um stöku lottóvinninga — og almenningur mun græðum þegar eitthvað af fjármagningu ratar sem súrefni á glóðir rannsókna. Ef til vill ætti að setja olíu á þann eld með ívilnunum, rannsóknarstyrkjum ásamt kröfurhörðum og umfangsmiklum opinberum innkaupum. Það eru ekki allar bólur skaðlegar.