Kæra evra, það ert ekki þú, það erum við

November 6, 2025

Hugmyndin um að festa íslenska hagkerfið við evruna er eins og að reyna að sigla litlum fiskibát í samfloti við risavaxið flutningaskip. Á meðan Frakkland, sem hagkerfi í miðju evrusvæðisins, nýtur góðs af peningastefnu sem er oftast nær rétt stillt fyrir það, þá slær íslenski efnahagurinn í allt öðrum takti. Hagkerfið okkar er lítið, opið og undirorpið allt annars konar áföllum en gerist og gengur á meginlandinu – hvort sem það eru eldgos, loðnubrestur eða skyndilegar sveiflur í ferðaþjónustu. Að afsala sér sjálfstæðri peningastefnu og getunni til að láta gengið aðlagast væri eins og að henda stýrinu fyrir borð. Við yrðum farþegar í hagstjórn annarra, þar sem okkar sérþarfir væru í besta falli aukaatriði í stóra samhenginu.

Lærdómurinn af fjármálahruninu 2008 ætti að vera okkur ofarlega í huga. Gengisfall krónunnar var vissulega sársaukafullt til skamms tíma, en það virkaði líka sem öflugur efnahagslegur höggdeyfir. Það gerði útflutninginn okkar samkeppnishæfari og breytti landinu í hagkvæman áfangastað fyrir ferðamenn, sem lagði grunninn að ótrúlega skjótum viðsnúningi. Lönd á jaðri evrusvæðisins sem lentu í svipuðum skakkaföllum höfðu ekki þennan sveigjanleika. Þau voru föst í fjötrum of hás gengis og neyddust í margra ára sársaukafullan samdrátt með tilheyrandi atvinnuleysi og niðurskurði. Að halda í krónuna er því ekki bara spurning um þjóðerniskennd, heldur hagstjórnarleg nauðsyn til að tryggja að við getum áfram brugðist við áföllum á okkar eigin forsendum.

Fyrir fólk á vinstri vængnum, sem berst fyrir öflugu velferðarkerfi og sameiginlegum innviðum, er kjarni málsins fólginn í fjárhagslegu sjálfstæði og lýðræðislegri yfirráð yfir eigin fjárlögum. Þótt Ísland hafi sett sér sínar eigin skuldareglur er grundvallarmunur á þeim og aga- og skuldaramma evrunnar. Okkar reglur eru settar af Alþingi, þeim er hægt að breyta með lýðræðislegri umræðu og þær leyfa sveigjanleika þegar þjóðfélagslegar þarfir kalla á það. Innan evrusvæðisins erum við hins vegar komin í þröngan stakk sem sniðinn er í Frankfurt og Brussel. Stórhuga áform um uppbyggingu innviða, stórsókn í húsnæðismálum eða eflingu heilbrigðiskerfisins – allt verkefni sem krefjast getu til að beita fjárlögum af afli – gætu lent í uppnámi ef þau rekast á óhagganlegan vegg skuldareglna sem taka ekkert tillit til íslenskra aðstæðna. Valið stendur því á milli lýðræðislegs sveigjanleika til að sækja fram og erlends aðhalds sem setur velferðinni skorður.

Þá má ekki gleyma hlutverki sjálfvirku jafnaranna, sem eru burðarás í norrænu velferðarkerfi. Þegar harðnar í ári og atvinnuleysi eykst, aukast útgjöld til atvinnuleysisbóta á meðan skatttekjur rýrna. Þetta er ekki hönnunargalli, heldur innbyggður eiginleiki sem mildar höggið fyrir heimili og fyrirtæki. Innan fastmótaðs ramma evrunnar, þar sem frávik frá skuldareglum geta kallað á tafarlausar refsiaðgerðir, gæti þessi sjálfvirka svörun kerfisins orðið að vandamáli. Í stað þess að leyfa jöfnurunum að vinna sína vinnu gæti íslenskt samfélag verið neytt til að grípa til harkalegs niðurskurðar einmitt þegar þörfin fyrir stuðning er mest. Slíkt myndi ekki aðeins dýpka hverja kreppu, heldur grafa markvisst undan grunni þess félagslega öryggisnets sem við viljum standa vörð um. Að halda í krónuna er því forsenda þess að geta rekið raunverulega félagshyggju, ekki bara í góðæri, heldur líka þegar á móti blæs.

Vandi heimahaganna er þó ekki síður alvarlegur og kallar á róttæka endurskoðun. Við höfum gengið of langt í hugmyndafræðinni um sjálfstæðan seðlabanka sem beitir einu stóru vopni – stýrivöxtum – gegn öllum meinum. Bankinn virðist nú fastur í sjálfheldu hávaxtastefnu þar sem hann eltir skottið á sjálfum sér. Glórulausir vextir eru notaðir sem barefli til að kæla niður hagkerfið í heild sinni á meðan rót vandans liggur að stórum hluta í framboðsskorti á húsnæðismarkaði, knúið áfram af gríðarlegum innflutningi vinnuafls til að fóðra atvinnugreinar á ljóshraða.

En lausnin á þessum innri veikleika felst alls ekki í því að hlaupa í fangið á evrunni. Það myndi einfaldlega þýða að skipta út íslenskri sjálfheldu fyrir evrópska spennitreyju, þar sem við hefðum nákvæmlega ekkert um eigin hagstjórn að segja. Raunverulega tækifærið okkar felst í því að nýta smæðina og samstöðuna sem styrk. Við þurfum að hafa hugrekki til að hanna okkar eigin peningastefnu frá grunni, þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, ráðast með markvissum aðgerðum að þeim þáttum sem raunverulega fíra upp verðbólgu hverju sinni, í stað þess að refsa heilli þjóð. Sannkallað fullveldi felst ekki aðeins í því að hafa eigin gjaldmiðil, heldur í því að hafa kjark til að stýra honum á okkar eigin forsendum.

Comments 0

No comments yet. Be the first to comment!